Gefur eingöngu út góðar og skemmtilegar bækur!

Bókstafur ehf

Nýjar bækur

Kolfinna bokatindi„Í alvöru mamma. Ég trúi því ekki á ykkur að ætla að senda mig þangað. Þetta er bara útlegð!“ Kolfinna er 16 ára stelpa sem er send til ömmu sinnar á Eskifirði eftir að skóla lýkur um vorið. Hún hefur ekki miklar væntingar til lífsins á þeim stað en margt á svo sannarlega eftir að koma henni – og öðrum – á óvart.
Bókin er eftir Hrönn Reynisdóttir og er frumraun höfundar á bókmenntasviðinu. Kápumynd hannaði Perla Sigurðardóttir.

Musadagar kapa„Bestu og þakklátustu hlutverk í heimi eru að verða amma og afi.“ Sögurnar vinnur Íris Dóróthea Randversdóttir upp úr örsögum sem margar hafa áður birst á Snjáldurskinnu. Bókin er ríkulega myndskreytt af Unni Sveinsdóttur. Í bókinni er brugðið upp myndum úr lífi músaömmu og músaafa með smámýslum sínum í dagsins önn. Það er bakað og brasað og hlegið og glimmerað og skæpað milli skerja. Óhætt er að segja að bókin sé sannkallaður ástaróður til barnabarna. Yndislestur fyrir alla, sérstaklega ömmur og afa!

Afbrydisemi kapaAf hverju er alltaf allt flottara sem aðrir gera? Bókin er fyrir yngstu lesendurna og fjallar um afbrýðisemi og hvernig bera má kennsl á hana og vinna bug á henni.

Ásta María Hjaltadóttir, sérkennari, og Þorgerður Ragnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur, vinna tilfinningabækurnar út frá aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar. Í bókinni eru, auk skemmtilegra teikninga, skýringamyndir um hvernig hægt er að takast á við erfiðar tilfinningar.

Reidi kapaStundum verðum við reið er bók fyrir yngstu lesendurna. Hún fjallar um reiðina og hvernig hægt er að taka á málum þegar hún nær yfirhöndinni.

Ásta María Hjaltadóttir, sérkennari, og Þorgerður Ragnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur, vinna tilfinningabækurnar út frá aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar. Í bókinni eru, auk skemmtilegra teikninga, skýringamyndir um hvernig hægt er að takast á við erfiðar tilfinningar.

Ovart ThumbnailGuð sem kemur á óvart eftir Gerard W. Hughes er komin út í þýðingu Vigfúsar Ingvars Ingvarssonar. Þetta er þekktasta bók höfundarins og hefur verið þýdd á yfir 20 tungumál. Gamalli visku og reynslu er miðlað til nútímafólks. Hughes (1924-2014) var maður íhugunar og bænar en jafnframt baráttu gegn þjóðfélagslegu óréttlæti, stríðsæsingum og umhverfisvá. Alvarleg mál eru stundum sett fram í gamansömum tón þegar varað er við trúarlegri hræsni.

indexAusturland er draumasvæði fjallgöngumannsins. Á svæðinu er fjallent, uppi á hálendi sem niður við firðina og ótal gönguleiðir í boði fyrir fjallagarpa. Þá gildir einu hvort menn eru að leita að krefjandi tindum eða léttari gönguleiðum. Enda hefur útivist á svæðinu vaxið fiskur um hrygg á undanförnum árum.  

Nú er komin út bók um fjallgönguleiðir á Austurlandi.

MK Er einhver tharna forsida„Ég varð að fara aftur til New York og reyna að finna hann. Kannski var hann ekki þar en ég varð að athuga það því eitt var ég viss um: Hann var ekki hér.“

Anna Walsh er öll í skralli. Hún liggur í betri stofu foreldra sinna, lætur sig dreyma um að fara frá Dublin og komast aftur til New York. Til vina sinna. Til flottasta starfs í heimi. En, fyrst og fremst, til Aidans.

Vefmynd

Einhver Ekkineinsdóttir er 8 ára gömul. Henni er strítt á að eiga engan pabba svo hún heldur út í heim að leita hans. Sagan gerist í eins konar ævintýraheimi sem á köflum er mjög íslenskur, enda er höfundurinn mikill Íslandsvinur og hefur dvalið langdvölum hér á landi. Í gegnum söguna liggja einnig þræðir úr rússneskum ævintýrum. Bókin er eftir eistnesku skáldkonuna Kätlin Kaldmaa og kemur nú út í þýðingu Lemme Lindu Saukas Olafsdóttur. Myndskreytingar gerði Marge Nelk.

Forsíða2Í nóvember kemur út listaverkabók með hestamyndum listamannsins Péturs Behrens. Í bókinni verða yfir 100 myndir, unnar með ýmsum aðferðum sem allar tengjast hestum og hestamennsku. Skýringatextar eftir listamanninn eru við hverja mynd, á þremur tungumálum, íslensku, ensku og þýsku.

umrot 08minniFyrsta bók ársins hjá Bókstaf er önnur ljóðabók Huldu Sigurdísar Þráinsdóttur, Umrót. Bókin inniheldur glæný ljóð og kemur út á afmælisdegi höfundar, þann þriðja mars 2016. Útgáfuhóf verður haldið á Bókakaffi, Hlöðum kl. 17.00.

RitsmiðjaRitsmiðja Austurlands eru frjáls félagasamtök áhugafólks um útgáfumál á Austurlandi. Samtökin eru öllum opin sem áhuga hafa á málefninu.

Tilgangur samtakanna er að skapa tengslanet fagfólks í útgáfutengdum greinum og vinna að sameiginlegum hagsmunamálum. Til dæmis með því að auðvelda höfundum á svæðinu sjálfsútgáfu, auka samstarf í markaðssetningu og standa að námskeiðahaldi með útgáfutengdum félögum, fyrirtækjum og stofnunum á svæðinu. Samtökin voru stofnuð þann 29. janúar 2015 og bráðabirgðastjórn skipuð. Stjórn undirbýr aðalfund og gerir drög að starfsáætlun fyrsta starfsárs.

Stofnskrá félagsins verður opin fram að aðalfundi, 18. apríl.

 

 

Stjórn

Formaður: Sigríður Lára Sigurjónsdóttir
Netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Meðstjórnendur: Ásdís Helga Bjarnadóttir og Stefán Bogi Sveinsson

Varastjórn: Kristian Guttesen og Skúli Björn Gunnarsson

 

 

Lög

Lög

Bókstafs – Ritsmiðju Austurlands

1. grein

Félagið heitir Bókstafur ­– Ritsmiðja Austurlands. Lögheimili þess er að Kaupvangi 6, 700 Egilsstöðum.

2. grein

Markmið félagsins er að efla samstarf þeirra sem iðka ritstörf og starfa að útgáfu á Austurlandi, veita þeim þjónustu og aðstoða þá við að koma verkum sínum á framfæri jafnt á rafrænum sem hefðbundnum miðlum. Einnig að vera sameiginlegur vettvangur gagnvart opinberum aðilum, veita stuðning við leit að fjármagni til hugverkagerðar og að efla þekkingu og þjálfun félaga sinna og annarra þeirra sem starfa á þessum vettvangi í fjórðungnum.

3. grein

Félagi getur hver sá einstaklingur orðið sem vinnur að hugverkagerð og er tilbúinn að styðja megintilgang laga þessara.

4. grein

Inntökubeiðni skal koma formlega á framfæri við stjórn félagsins. Í henni skal koma fram nafn, kennitala og heimilisfang hins nýja félaga. Upplýsingar um nýja félaga skal kynna á næsta félagsfundi. Stjórn félagsins heldur skrá yfir fullgilda félaga og skal hún vera aðgengileg og liggja frammi á fundum samtakanna.

5. grein

Úrsögn úr félaginu skal á sama hátt tilkynna formlega til stjórnar félagsins. Skal hún vera skrifleg.

6. grein

Árgjald til félagsins skal ákveðið á aðalfundi þess hvert ár og skal gilda fyrir það ár sem hefur göngu sína næst eftir að viðkomandi aðalfundur er haldinn. Skal það innheimt með greiðsluseðli eða á annan ótvíræðan hátt eigi síðar en í júní á viðkomandi tekjuári.

7. grein

Starfssvæði félagsins er Austurland frá Langanesi að Lómagnúp og skal árlegur aðalfundur þess boðaður öllum skráðum félögum skriflega með minnst 7 daga fyrirvara. Heimilt er að boða aðalfund með tölvupósti. Aðra félagsfundi er heimilt að boða eftir hentugleikum og gilda þá sömu reglur um fundarboð. Aðalfundur og aðrir félagsfundir eru lögmætir sé löglega til þeirra boðað.

Allir skráðir félagar hafa málfrelsi, tillögurétt og atkvæðisrétt á félagsfundum.

8. grein

Aðalfundur félagsins hefur æðsta vald í málefnum þess. Skal hann haldinn í síðasta lagi 30. apríl ár hvert. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað.

Verkefni aðalfundar skulu meðal annars vera:

 • Skýrsla stjórnar félagsins fyrir liðið starfsár.

 • Kynning nýrra og brottfallinna félaga frá síðasta aðalfundi.

 • Afgreiðsla reikninga næstliðins reikningsárs, sem er almanaksárið.

 • Lagabreytingar, ef um það koma fram formlegar tillögur.

 • Áætlun um starf félagsins á næsta starfsári lögð fram ásamt fjárhagsáætlun.

 • Ákvörðun árgjalds félagsmanna fyrir næsta ár.

 • Kosning stjórnar, varamanna í stjórn og skoðunarmanna reikninga.

Einfaldur meirihluti ræður úrslitum á félagsfundum, nema um lagabreytingu sé að ræða.

9. grein

Stjórn félagsins skal skipuð þremur mönnum, formanni og tveimur meðstjórnendum. Formaður skal kosinn sérstaklega en aðrir stjórnarmenn í einu lagi. Varastjórn skipa tveir menn og skal hún kosin í einu lagi. Kosnir skulu tveir skoðunarmenn reikninga og tveir varamenn. Kosið skal eftir tilnefningum og skal kosning vera skrifleg ef tilnefningar koma fram um fleiri menn en þeim embættum nemur sem kosið er til hverju sinni.

Kjörgengir til stjórnar og varastjórnar eru allir skráðir félagar. Auk þess er heimilt að kjósa skoðunarmenn eða varamenn þeirra úr hópi utanfélagsmanna.

10. grein

Verkefni stjórnar skulu vera:

 • Að stýra málefnum félagsins á milli aðalfunda.

 • Að vera málsvari félagsins út á við.

 • Að innheimta árgjöld félaga.

 • Að afla framlaga úr sjóðum opinberra aðila, stofnana eða fyrirtækja til þeirra verkefna sem félagið hyggst beita sér fyrir hverju sinni.

 • Að varðveita sjóði félagsins og leggja fram endurskoðaða reikninga fyrir aðalfund.

Stjórnarfundi skal halda svo oft sem stjórn ákveður og þurfa þykir. Hafi 6 mánuðir liðið frá síðasta stjórnarfundi, er formanni skylt að boða til fundar ef einn af stjórnarmönnum krefst þess.

11. grein

Lögum þessum má aðeins breyta á lögmætum aðalfundi og þarf til þess 2/3 hluta greiddra atkvæða. Verði félaginu slitið eða það sameinað öðru félagi skal tillaga um það kynnt með fundarboði og þarf 9/10 atkvæða fundarmanna til þess að hún teljist samþykkt. Síðasta stjórn samtakanna annast ráðstöfun eigna og uppgjör skulda félagsins. Hreinni eign þess við félagsslit skal þó verja í samræmi við megintilgang félagsins.

Þannig samþykkt á stofnfundi félagsins þann 29. janúar 2015.

 

PóstlistiReceive HTML?

Joomla Extensions powered by Joobi

Bókstafur ehf.

Copyright © 2011-2012. All Rights Reserved.

Bókstafur ehf - Ritsmiðja Austurlands - Sími 553 4707
Kaupvangi 6 - 700 Egilsstaðir - kt. 420215-0100